Fótbolti

James Rodríguez átti stóran þátt í að bjarga lífi mótherja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Rodríguez var snöggur að hugsa þegar Ousmane Coulibaly hné niður.
James Rodríguez var snöggur að hugsa þegar Ousmane Coulibaly hné niður. getty/Paul Ellis-Pool

Kólumbíski fótboltamaðurinn James Rodríguez átti stóran þátt í að bjarga lífi mótherja sem fékk hjartaáfall í leik Al-Rayyan og Al-Wakrah í katörsku úrvalsdeildinni um helgina.

Í fyrri hálfleik hné Ousmane Coulibaly, leikmaður Al-Wakrah, niður. James var fyrstur á vettvang og var fljótur að bregðast við. Hann færði höfuð Coulibalys til svo hann gæti andað áður en sjúkralið mætti á staðinn.

Viðbrögð James skiptu sköpum en ástand Coulibalys var stöðugt þegar hann var fluttur á spítala.

Leik var hætt eftir að Coulibaly hné niður. Staðan var þá 1-0, Al-Rayyan í vil. Þráðurinn var tekinn upp á ný á mánudaginn og leikurinn kláraður. Al-Rayyan bætti tveimur mörkum við og vann því 3-0 sigur. James skoraði tvö mörk í leiknum.

Kólumbíumaðurinn kom til Al-Rayyan eftir eitt tímabil í herbúðum Everton. Þar áður lék hann með Real Madrid og Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×