Fótbolti

Fjórða jafnteflið í seinustu fimm hjá PSG

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappé og félagar eiga í erfiðleikum með að vinna leiki þessa dagana.
Kylian Mbappé og félagar eiga í erfiðleikum með að vinna leiki þessa dagana. Xavier Laine/Getty Images

Franska stórveldið Paris Saint-Germain sótti eitt stig er liðið heimsótti Lyon í frönsku deildinni í kvöld. Lokatölur urðu 1-1, en þetta var fjórða jafnteflið í seinustu fimm deildarleikjum Parísarliðsins.

Lucas Paqueta kom heimamönnum í Lyon yfir strax á sjöundu mínútu eftir stoðsendingu frá Bruno Guimaraes og það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins. Staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

PSG jafnaði loksins metin þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka. Þar var á ferðinni varamaðurinn Thilo Kehrer eftir stoðsendingu frá öðrum varmanni, Edouard Michut, sem hafði komið inn á á sama tíma og Kehrer.

Hvorugu liðinu tókst svo að finna sigurmarkið og því urðu lokatölur 1-1. PSG er sem fyrr á toppi deildarinnar með 47 stig, 11 stigum meira en Nice sem situr í öðru sæti.

Lyon situr hins vegar í 11. sæti deildarinnar með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×