Innlent

Helga Möller í pólitíkina

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Helga Möller.
Helga Möller. Facebook/Helga Möller

Söngkonan Helga Möller hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ. Hún greinir frá þessu í færslu á Facebook síðu sinni og segist stefna á þriðja eða fjórða sætið í prófkjörinu.

„Ég heiti Helga Möller, 64 ára Reykvíkingur en hef búið í Mosfellsbæ í 3 ár og elska það,“ segir Helga í færslunni. Þar fer hún yfir víðan völl og segir störf sín sem flugfreyja og söngkona hafa kennt henni umburðarlyndi, virðingu, þolinmæði og margt fleira. 

Þá er hún með stúdentspróf frá Verzló, lærði þýsku í háskólanum í Dusseldorf og útskrifaðist í vor frá Háskólanum á Bifröst af námsleiðinni „Mætti kvenna,“ sem snýr að stofnun og rekstri fyrirtækja.

„Ég flutti í Mosfellsbæ af því að mig langaði að til að fara út fyrir Reykjavík og vera nær náttúrunni og féll alveg fyrir Helgafellslandinu. Ég upplifði bæjarhátíðina okkar og fékk að skreyta svalirnar mínar í bláu í fyrsta skipti á ævinni og allt svona lítið og persónulegt heillar mig við bæinn okkar,“ segir Helga í færslunni.

Helga heldur áfram: „Ég brenn fyrir því að Mosfellsbær verði enn betri kostur til að búa í. Ég brenn fyrir íbúum Mosfellsbæjar, gamla fólkinu, börnunum og fjölskyldunum. Ég brenn fyrir skipulagsmálum og kannski einna helst fyrir menningarmálum sem eru mér ofarlega í huga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×