Fótbolti

Niko Kovac rekinn frá Monaco

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Niko Kovac.
Niko Kovac. vísir/Getty

Króatíska knattspyrnustjóranum Niko Kovac hefur verið gert að yfirgefa franska úrvalsdeildarliðið Monaco eftir eitt og hálft ár í starfi.

Kovac tók við Monaco sumarið 2020 en liðið hefur ekki þótt sannfærandi í frönsku deildinni á leiktíðinni, situr í 6.sæti og er sautján stigum á eftir toppliði PSG.

Liðið hafnaði í 3.sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Kovac hóf þjálfaraferil sinn þegar hann tók við landsliði Króatíu og leiddi það til sigurs gegn Íslandi í umspili fyrir HM í Brasilíu 2014. Þaðan var hann rekinn tveimur árum síðar og færði hann sig til Þýskalands þar sem hann stýrði Eintracht Frankfurt við góðan orðstír.

Í kjölfarið fékk hann tækifærið hjá Bayern Munchen og þrátt fyrir að vinna deild og bikar á sínu fyrsta tímabili var hann látinn taka pokann sinn á öðru tímabili sínu í Bæjaralandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×