Neytendur

Slær á fingur Costco vegna til­högunar á endur­nýjun aðildar við­skipta­vina

Atli Ísleifsson skrifar
Neytendastofa taldi tilhögunina villandi, ósanngjarna í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda.
Neytendastofa taldi tilhögunina villandi, ósanngjarna í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda. Vísir/Hanna

Neytendastofa hefur slegið á fingur Costco á Íslandi vegna tilhögunar og kynningar á endurnýjun viðskiptaaðildar hjá versluninni. Er hún talin villandi, ósanngjörn í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra.

Neytendastofa tók málið til skoðunar eftir að ábending barst um að þegar viðskiptavinur endurnýi aðild sína hjá Costco þá miði upphaf nýrrar aðildar við þann tíma sem fyrri aðild rann út en ekki daginn sem aðild er endurnýjuð. Í öllu kynningarefni komi hins vegar fram að aðild sé tólf mánuðir en samkvæmt þessu geti endurnýjuð aðild verið styttri.

„Í skilmálum Costco um endurnýjun aðildar kemur fram að endurnýjun sé fyrir 12 mánaða tímabil miðað við upphaflega skráningu, aðild sem sé endurnýjuð innan tveggja mánaða frá því að núverandi aðild rann út, verði endurnýjuð í 12 mánuði frá því að gildistíminn rann út en að aðild sem sé endurnýjuð tveimur mánuðum eða seinna, eftir að hún rennur út, verði framlengd um 12 mánuði frá dagsetningu endurnýjunar.

Taldi Neytendastofa kynningu félagsins á endurnýjun aðildar villandi, ósanngjarna í garð neytenda og til þess fallna að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni neytenda. Hinn almenni neytandi muni ekki gera sér grein fyrir umræddum fyrirvörum á gildistíma enda alla jafna talað um árlegt aðildargjald og 12 mánaða gildistíma og ekki gerð grein fyrir þessum skilmála í kynningarefni aðildarinnar,“ segir á vef Neytendastofu.

Neytendastofa telur rétt með vísan til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins að banna Costco að viðhafa slíka viðskiptahætti.

Lesa má ákvörðunina í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×