Innlent

Ekki ó­senni­legt að Allir vinna verði fram­lengt „að ein­hverju leyti“

Atli Ísleifsson og Heimir Már Pétursson skrifa
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar. Stöð 2

Ekki er ósennilegt að átakið Allir vinna verði framlengt að einhverju leyti. Málið verður tekið til umræðu í fjárlaganefnd milli annarar á þriðju umræðu á þingi.

Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Átakið Allir vinna gengur út á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna, meðal annars  við endurbætur á íbúðarhúsnæði.

Önnur umræða um fjárlög næsta árs hófst á þinginu í gærkvöldi þar sem meirihluti fjárlaganefndar lagði fram aukin útgjöld upp á fjórtán milljarða meðal annars vegna stuðnings við veitingarekstur vegna tekjufalls í faraldrinum, hækkun barnabóta og fleira. Þingfundi lauk á fjórða tímanum í nótt og annar fundur hefur verið boðaður klukkan 10 í dag.

Bjarkey sagði að milljarður færi til einhvers konar styrkja til handa veitingageiranum líkt og lög geri ráð fyrir við tekjufall þar.

„Miðað við aðstæður er alveg ljóst að þar er tekjufallið mikið. Síðan erum við að framlengja greiðslur í sóttkví, framlengja, eða öllu heldur að gera ráð fyrir, að ráðningarstyrkjum sem hægt var að sækja um til áramóta. Það eru ríflega þrír milljarðar sem fara í það á næsta ári. Þetta er það helsta hvað varðar COVID í frumvarpinu,“ segir Bjarkey.

Bjarkey að að rætt hafi verið að framlengja átakið Allir vinna. „Það barst mikið ákall um það inn í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Við erum ekki komin svo langt ennþá en við tökum það væntanlega fyrir milli annarrar og þriðju umræðu. Það er ekki ósennilegt að það verði framlengt að einhverju leyti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×