Mæling Hagstofunnar, sem var birt í morgun, er í takt við væntingar greinenda en spár um 12 mánaða verðbólgu voru á bilinu 4,9 til 5,2 prósent.
Ef húsnæðisliðurinn er tekinn út úr mælingunni nemur verðbólga síðustu 12 mánaða um 3,3 prósentum. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hækkaði um 0,6 prósent milli mánaða.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 10,8 prósent milli mánaða og verð á mat- og drykkjavörum hækkaði um 0,7 prósent.
Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í nóvember vísaði bankinn til versnandi verðbólguhorfa sem endurspegluðu einkum þrálátar alþjóðlegar verðhækkanir, hækkun launakostnaðar og aukna spennu í þjóðarbúinu.
Bankinn spáði því að verðbólga myndi hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs og hún færi ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.
Í kjölfar vaxtahækkunarinnar sagði seðlabankastjóri í samtali við Innherja að ekki væri „endilega“ von á hröðum vaxtahækkunum á komandi misserum. Næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er í febrúar.
„Við ættum þá að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en það gæti verið óþægilegt fyrir okkur ef við sjáum verðbólguna halda áfram að hækka á næstu þremur mánuðum á sama tíma og þessar launahækkanir eru að koma inn,“ útskýrði Seðlabankastjóri.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.