Innlent

Einar Karl, Nanna og Þorsteinn metin hæfust

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður.
Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður.

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður er að mati dómnefndar hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í embætti dómara við Héraðsdóm Suðurlands.

Frá þessu er greint á vef dómsmálaráðuneytisins. Þá segir dómnefndin að Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, og Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri óbyggðanefndar, séu hæfust til að hljóta skipun í embætti dómara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Nefndin gerir ekki upp á milli þeirra.

Tvö embætti héraðsdómara voru auglýst til umsóknar þann 15. október síðastliðinn.Annars vegar er um að ræða embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og hins vegar embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Suðurlands.

Samtals bárust tíu umsóknir en tveir umsækjenda sóttu einungis um síðarnefnda embættið.

Niðurstaða dómnefndar er sú að Einar Karl sé hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Suðurlands. Það er jafnframt niðurstaða dómnefndar að Nanna og Þorsteinn séu hæfust umsækjenda til að hljóta skipun í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, og verði ekki gert upp á milli þeirra tveggja.

Dómnefndina skipuðu þau Eiríkur Tómasson formaður, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson, Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorgeir Örlygsson. Það kemur í hlut Jóns Gunnarssonar innanríkisráðherra að skipa dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×