Innlent

Hverfið við stokkinn verði gjör­breytt eftir fimm ár

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ævar Harðarson er deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkur.
Ævar Harðarson er deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkur. Vísir/Egill

Deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkur telur að ásýnd Hlíðahverfis við fyrsta áfanga Miklubrautarstokks verði gjörbreytt eftir fimm ár. Þá hefur hann ekki áhyggjur af hljóðvist í nýbyggingum þétt upp við gatnamót Háaleitisbrautar, þangað sem stokkurinn nær ekki.

Fyrsti áfangi Miklubrautarstokksins mun ná frá Snorrabraut að gatnamótum Miklubrautar við Rauðarárstíg. Þegar stokkurinn er tilbúinn mun draga mjög úr umferðarhávaðanum sem einkennir þetta svæði og borgarlínan líða hjá í mikilli friðsæld.

Ofanjarðar er gert ráð fyrir allsherjarborgargötu með hjólastígum og grænni ásýnd. Hér fyrir neðan má til dæmis sjá hugmynd frá Jakobi Jakobssyni arkítekt að útfærslu á yfirbyggingu gatnamóta Snorrabrautar og Miklubrautar. 

Norðurmýrin er á vinstri hönd en lituðu byggingarnar fyrir miðju, sem yrðu bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði, eru ekki til - enn þá, að minnsta kosti. Nú er kallað eftir umsögnum íbúa um tillögur en framkvæmdir haldast í hendur við nýbyggingu Landspítala.

„Undirbúningur er rétt að hefjast. Það er verið að skoða þessar hugmyndir og tillögur sem eru kynntar á vefnum okkar. Og ég held að þetta umhverfi verði gjörbreytt eftir fimm ár,“ segir Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkurborgar.

„Ég held þetta verði einhverjar mestu breytingar í borginni fyrir þau hverfi sem liggja að Miklubrautinni.“

Þá eru uppi hugmyndir um að reisa nýbyggingar þétt upp við Miklubraut og Háaleitisbraut. Þær eru táknaðar með lit á þessari mynd en hvítu byggingarnar eru húsin sem fyrir eru á svæðinu. Ævar hefur ekki áhyggjur af hljóðmengun svo þétt upp við Miklubrautina - en ekki er áætlað að stokkurinn nái þangað.

„Besta hljóðvörn sem hægt er að fá, það er í nýbyggingum sem er þá hægt að hanna þannig að þær séu með góðar hljóðvarnir. Þetta er verið að gera annars staðar, það er verið að breyta svona veghelgunarsvæðum inni í Helsinki til dæmis í breiðstræti,“ segir Ævar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×