Innlent

Fáir fangar mættu til vinnu og náms í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Fangelsið Litla hraun.
Fangelsið Litla hraun. Vísir/Vilhelm

Fáir fangar mættu til vinnu og náms á Litla hrauni í dag. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að unnið sé að því að greina ástæður þess og að brugðist verði við. Aðdragandi jóla reynist erfiður föngum.

„Við munum grípa til viðeigandi ráðstafana þannig að allir vistmenn á okkar vegum geti mætt öruggir til vinnu og náms án þess að hafa áhyggjur af eigin velferð,“ segir Páll í samtali við Vísi.

Í ábendingu til fréttastofunnar segir að fangar séu í verkfalli. Páll vill þó ekki meina að svo sé.

Hann segir algengt að í aðdraganda jóla byggist upp spenna í fangelsum landsins. Þetta sé sá tími sem verst sé að vera í fangelsi og að ásókn í fíkniefni og önnur deyfiefni sé mikil á þessum tíma.

„Þetta getur valdið spennu í fangahópum og við gerum það sem nauðsynlegt er til að bregðast við og jafnframt tryggja að þessi tími sé eins bærilegur og mögulegt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×