Sport

Aldís Kara kjörin skautakona ársins eftir sögulegt ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aldís Kara Bergsdóttir var valin skautakona ársins 2021 hjá Skautasambandi Íslands.
Aldís Kara Bergsdóttir var valin skautakona ársins 2021 hjá Skautasambandi Íslands. Skautasamband Íslands

Skautasamband Íslands hefur valið Aldísi Köru Bergsdóttur sem skautakonu ársins 2021 en það er óhætt að segja að hún hafi skrifað sögu skautaíþróttarinnar á árinu 2021.

Þetta er þriðja árið í röð sem Aldís Kara er valin skautakona ársins en hún æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko.

Aldís Kara lét ekki heimsfaraldur stöðva sig og hefur verið jafnvel enn staðfastari í sínum markmiðum en áður en þau voru að ná lágmörkum inn á Evrópumeistaramót og Heimsmeistaramót.

Samhliða æfingum og keppni er Aldís Kara einnig að ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri í vor.

Á nýju keppnistímabili keppti hún á tveimur ISU Challenger Series mótum, í september og október en á Finlandia Trophy mótinu í október vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum en það er í fyrsta sinn sem íslenskur skautari vinnur sér þátttökurétt á því móti.

Til þess að öðlast keppnisrétt þarf að ná lágmarksstigum í bæði stuttu og frjálsu prógrammi á alþjóðlegu móti á lista ISU. Ekki þarf að ná lágmörkum fyrir bæði prógröm á sama móti.

Hún hefur einnig sett markið enn hærra og stefnir að því að ná lágmörkum fyrir Heimsmeistaramót líka en það næst þó ekki á þessu ári. Nýtt ár mun hefjast með þátttöku Aldísar á Evrópumeistaramótinu sem mun verða haldið í Tallin, Eistlandi, dagana 6. til 10. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×