Formúla 1

Lewis Hamilton sleginn til riddara á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Hamilton var svo nálægt því að vinna sinn sjötta heimsmeistaratitil í röð og þann áttunda á ferlinum.
Lewis Hamilton var svo nálægt því að vinna sinn sjötta heimsmeistaratitil í röð og þann áttunda á ferlinum. Getty/Bryn Lennon

Þetta var ekki góður sunnudagur fyrir breska ökukappann Lewis Hamilton en þetta ætti að vera aftur á móti góður miðvikudagur fyrir hann.

Hamilton verður nefnilega sleginn til riddara í Windsor kastalanum á morgun.

Hann verður þá fjórði formúlukappinn til að fá slíka heiður í Bretlandi en hinir eru Sir Jackie Stewart, Sir Stirling Moss og Sir Jack Brabham.

Hamilton hefði slegið tvö met Michael Schumacher hefði hann náð að halda forystunni í lokakappakstrinum í Abú Dabí um helgina en missti Max Verstappen fram úr sér í lokahringum á umdeildan hátt. Með því náði Verstappen að vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitilinn sinn.

Þetta hefði annars orðið áttundi heimsmeistaratitilinn og sá sjötti í röð hjá Hamilton. Schumacher vann sjö heimsmeistaratitla á sínum tíma þar af fimm ár í röð frá 2000 til 2004.

Það hefði verið risastórt og sögulegt fyrir Lewis Hamilton að vinna um helgina og svekkelsið var skiljanlega mikið. Hann fékk hins vegar mikið hrós frá öllum fyrir framkomu sína í viðtölum þar sem hann sýndi stillingu og kurteisi og talaði vel um nýja heimsmeistarann.

Lewis Hamilton hafði áður fengið MBE orðuna en hana fékk hann eftir fyrsta heimsmeistaratitil sinn árið 2009. Síðan hefur hann bætt við sex heimsmeistaratitlum.

Eftir miðvikudaginn verður hann orðinn Sir Lewis Hamilton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×