Erlent

„Ó­hugsandi harm­leikur“

Árni Sæberg skrifar
Joe Biden finnur til með íbúum Kentucky og fleiri ríkja.
Joe Biden finnur til með íbúum Kentucky og fleiri ríkja. getty/Anna Moneymaker

Joe Biden Bandaríkjaforseti hyggst heimsækja þau svæði sem verst hafa farið út úr hvirfilbyljum sem geisuðu um mið- og suðurríki Bandaríkjanna á föstudag, þegar það verður mögulegt. Hann segir það óhugsandi harmleik að missa ástvini sína í fárviðri.

Óttast er að minnst áttatíu gæti hafa farist í hvirfilbyl í Kentucky-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöldi en talið að lokatalan gæti farið yfir hundrað. Mestu hamfarirnar urðu í bænum Mayfield í vesturhluta ríkisins en talið er að tugir hafi látist þegar hvirfilbylur lagði kertaverksmiðju í bænum í rúst.

Óveðrið hefur einnig skilið eftir sig gríðarlega slóð eyðileggingar í nágrannaríkjum. Manntjón er talið hafa orðið í Illinois þegar þak á vöruhúsi verslunarrisans Amazon hrundi ofan á starfsmenn. Ríkisstjóri Kentucky segir hvirfilbylinn þann versta í sögu ríkisins og að mannfall hafi aldrei verið jafn mikið.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að aðstoða ríki sem hafa verið grátt leikin.

„Ég legg áherslu á það sem ég sagði öllum ríkisstjórunum, alríkisstjórnin mun gera allt, allt sem hún mögulega getur til að aðstoða,“ segir hann.

Þá segir hann að Þjóðvarðalið Bandaríkjanna verði sent til þeirra ríkja sem á því þurfa að halda.

Hann geti þó ekki lagt sjálfur af stað alveg strax. „Þegar forseti ferðast, ferðast hans með ansi stóru starfsliði, ansi mörgum farartækjum - við gætum þvælst fyrir, því miður,“ segir hann.

Hann sé því að skipuleggja heimsókn ásamt ríkisstjóra Kentucky svo hún gera eitthvert gagn.

Forsetinn tjáði sig um hamfarirnar á Twitter í gær, hann segir meðal annars að missir ástvina í fárviðri sé harmleikur sem hann geti ekki ímyndað sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×