Erlent

Einkenni smitaðra í Evrópu væg enn sem komið er

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnvöld í Bretlandi eru meðal þeirra sem hvetja þegna sína nú til að þiggja örvunarskammt til að vernda gegn ómíkron.
Stjórnvöld í Bretlandi eru meðal þeirra sem hvetja þegna sína nú til að þiggja örvunarskammt til að vernda gegn ómíkron. epa/Andy Rain

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur nú greinst í 57 ríkjum heims og heldur áfram að dreifast hratt í Suður-Afríku. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir þó of snemmt að spá um áhrif afbrigðisins í heiminum, þar sem delta sé víðast hvar enn ráðandi.

Sóttvarnastofnun Evrópu hefur spáð því að ómíkron kunni að taka fram úr delta á næstu mánuðum. WHO segir hins vegar enn óútséð með það hversu smitandi afbrigðið er og ekki síður, hversu alvarlegum veikindum það veldur.

Af 899.935 sýnum sem voru raðgreind og færð inn í alþjóðlegan Covid gagnabanka á síðustu 60 dögum reyndust 99,8 prósent tilvika af völdum delta-afbrigðisins og aðeins 0,1 prósent af völdum ómíkron.

Hins vegar fjölgaði greindum í Suður-Afríku um 111 prósent milli vikna og þá fjölgaði innlögnum vegna Covid-19 um 82 prósent. Ekki er vitað í hversu mörgum tilvika er um að ræða ómíkron-afbrigðið.

Allir þeir 212 einstaklingar sem höfðu greinst með ómíkron í átján aðildarríkjum Evrópusambandsins 6. desember voru sagðir með engin eða mild einkenni. WHO segir hins vegar að jafnvel þótt alvarleiki veikinda af völdum ómíkron sé á pari við delta eða jafnvel minni, muni fleiri leggjast inn á sjúkrahús samhliða auknum fjölda sýkinga.


Tengdar fréttir

121 þúsund manns hafa mætt í örvunar­bólu­setningu

Örvunarskammtur af bóluefni Pfizer þykir veita góða vernd gegn ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Þetta sýna nýjar rannsóknir fyrirtækisins. Sóttvarnalæknir segir ávinning af örvunarskammti ótvíræðan en skiptar skoðanir eru meðal almennings um hvort sérreglur eigi að gilda fyrir bólusetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×