Innherji

Seðlabankastjóri segir bönkunum að leggja peninga til hliðar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun að það væri vel við hæfi að bankarnir myndu tafarlaust byrja að leggja peninga til hliðar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hefðu hjálpað bönkunum að draga úr útlánatöpum.

„Eins og staðan er núna er gott fyrir bankana að hafa í huga að þeim hefur gengið það vel að það er vel við hæfi að þeir leggi peninga til hliðar núna strax,“ sagði Ásgeir.

Ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar frá september um að hækka sveiflujöfnunaraukann úr 0 prósentum í 2 prósent mun taka gildi í lok september árið 2022. Sveiflujöfnunaraukinn, sem ætlað er að mæta sveiflutengdri kerfisáhættu, hafði verið felldur niður í mars 2020.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, spurði nefndarmenn um þau sjónarmið sem lægju á bak við ákvörðunina um að hækka sveiflujöfnunaraukann svo mikið.

„Hvað varðar sveiflujöfnunaraukann álitum við að það væru mjög mikilvæg skilaboð fyrir bankana að hann yrði hækkaður aftur. Hann var lækkaður í einu vetfangi til að gefa þeim færi á því að bregðast við mögulegum útlánatöpum sem kóvid myndi valda,“ svaraði Ásgeir

„Síðan kemur í ljós að þessi útlánatöp eru miklu minni heldur en við höfðum gert ráð fyrir,“ bætti seðlabankastjóri við. 

„Þeir hafa þurft að afskrifa minna, meðal annars vegna þess að það kom til ríkisábyrgð á verstu lánunum.“

„Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn stóðu saman að, bæði viðbótarlán og stuðningalán, hafa hjálpað bönkunum töluvert. Þeir hafa þurft að afskrifa minna, meðal annars vegna þess að það kom til ríkisábyrgð á verstu lánunum. Seðlabankinn prentaði peninga til þess að tryggja lága vexti á þessum stuðningslánum. Það hefur að einhverju leyti varið bankana fyrir útlánatöpum.“

Stóru viðskiptabankarnir færðu á bilinu 0,61 - 0,94 prósent af útlánum í virðisrýrnun á síðasta ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins bakfærðu bankarnir hluta af þeirri virðisrýrnun sem færð var á síðasta ári, eða 0,26 prósent af útlánasafninu.

Á markaðsdegi Arion banka sem var haldinn um miðjan nóvember kom fram í máli stjórnenda að umfram eigið fé bankans, sem hann hyggst skila til hluthafa með arðgreiðslum og endurkaupum á eigin bréfum, næmi 60 milljörðum króna.

Í minnisblaði sem fjármálastöðugleikanefnd birti samhliða yfirlýsingu sinni í dag er bent á að eiginfjárhlutföll bankanna séu 6-7 prósentum fyrir ofan þá lágmarks eiginfjárkröfu sem Seðlabankinn gerir. Bankarnir hafi því „gott svigrúm til að mæta hækkun sveiflujöfnunaraukans“ upp í 2 prósent.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×