Skoðun

Kennarar í forystu til framtíðar

Kristín Björnsdóttir skrifar

Það er mjög dýrmætt að vakna á morgnana og hlakka til að mæta í vinnuna. Að vera kennari er það besta sem ég veit. Að hitta samstarfsfólkið sitt og nemendurna sem kenna manni eitthvað nýtt á hverjum degi. Að sjá nemendur sína ná árangri er tilfinning sem ekki verður metin til fjár. Í starfsumhverfi kennara eru mikið um álitamál og að mörgu er að hyggja. Þeir þurfa að sýna mikla útsjónarsemi og leikni í starfi til að mæta ólíkum þörfum nemenda sinna og styðja þá til árangurs.

Á tímum heimsfaraldurs hefur reynt sérstaklega mikið á þessa leikni og hafa kennarar á öllum skólastigum sýnt hvers þeir eru megnugir. Mannauðurinn í íslenskum kennurum er einstakur og mikilvægt er að kennarar um allt land njóti stuðnings til sinna starfa. Að þeir eigi bakland hjá félaginu sínu, Kennarasambandi Íslands, menntamálayfirvöldum og hjá íslensku þjóðinni. 

Stuðningur og faglegt sjálfstæði getur reynst kennurum ómetanlegt og stuðlað að vellíðun í starfi og skólaþróun. Líði kennurum vel í starfi og séu vinnuaðstæður þeirra góðar skapast raunverulegur ágóði fyrir samfélagið í heild. Kennarar móta æsku landsins til framtíðar og er fagmennska þeirra afar mikilvæg.

Mannauð og fagmennsku kennara ætti að upphefja umtalsvert og ein leið til þess er að stjórnvöld veiti því viðurkenningu með auknu markvissu samráði þegar innleiða á breytingar í menntakerfinu. Kennarar eru sérfræðingar í kennslu og eiga að hafa rödd þegar stefna er mörkuð í menntamálum.

Forysta Kennarasambandsins þarf einnig að vera beitt og hnitmiðuð til þess að vinna að bættum hag og auknum árangri fyrir hönd allra kennara. Ég óska eftir stuðningi allra kennara til að vinna markvisst og af festu að málefnum kennara sem varaformaður Kennarasambands Íslands.

Höfundur er frambjóðandi til varaformanns Kennarasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×