Skoðun

Erindi til stéttar­fé­lags­manna KÍ

Hjördís B. Gestsdóttir skrifar

Kæri stéttarfélagi, menntun skiptir máli fyrir okkur öll og mikilvægt er að vanda valið þegar kemur að því að kjósa þá sem gefa kost á sér sem leiðtogar menntamála. Einstaklinga sem brenna fyrir málefnum menntunar, eru fylgnir sér, búa yfir þrautseigju og seiglu, hlusta á raddir kennara og valdefla þá.

Ég hef boðið mig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands þar sem ég hef trú á sjálfri mér í það starf. Lengi vel hef ég haft brennandi áhuga á menntamálum og tel mig hafa það sem til þarf til að leiða okkar fagstétt ásamt nýkjörnum formanni sambandsins.

Störf með börnum og ungmennum er gefandi og krefjandi í senn en eitt það mikilvægasta sem til er um leið. Mannauður fagstéttarinnar er mikill, fjölbreyttur og dýrmætur. Huga þarf að starfsumhverfi og gæðum starfsins og hlúa þarf að okkar fólki, styðja það og styrkja. Ánægja í starfi okkar kennara skilar sér í jákvæðari skólabrag og meiri árangri nemenda.

Kennarar þurfa sterkari rödd og þar get ég lagt mitt af mörkum með virkri hlustun um þau málefni sem kennarar brenna fyrir. Samstarf og samtal allra skólastiga og skólagerða er það sem þarf að vera virkt öllum stundum ásamt sveigjanleika og auknum tækifærum m.a. til sí- og endurmenntunar og frekari starfs- og framþróunar.

Kæri stéttarfélagi, ég óska eftir þínu atkvæði í sæti varaformanns Kennarasambands Íslands. Ég heiti þér því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og vinna ötullega að málefnum stéttarinnar með hagsmuni hvers og eins í huga, vera talsmaður okkar allra, enda lít ég svo á að við séum ein heild.

Saman getum við gert svo miklu betur og meira! Látum verkin tala! 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×