Innlent

Höfnuðu nýju svínabúi í Árborg vegna fjölda andmæla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt fundargerð skipulags- og byggingarsviðs Árborgar barst fjöldi mótmæla gegn svínabúinu.
Samkvæmt fundargerð skipulags- og byggingarsviðs Árborgar barst fjöldi mótmæla gegn svínabúinu.

Bæjarstjórn Árborgar hefur samþykkt tillögu skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins, sem lagði til að fallið yrði frá áformum um deiliskipulag fyrir svínabú á jörðinni Hólar. Þá lagði nefndin einnig til að fallið yrði frá hugmyndum um að skilgreina iðnaðarsvæði á umræddum stað.

Bæjarstjórn Árborgar hafði á fundi í september síðastliðnum samþykkt skipulagslýsingu áætlaðs deiliskipulags fyrir svínabú á Hólum en lýsingin tók til um 5 hektara svæðis norðan Gaulverjabæjarvegar, þar sem til stóð að reisa 600 gylltna svínabú með möguleika á stækkun húsakosts og aukinni framleiðslu á síðari stigum.

Samkvæmt fundargerð skipulags- og byggingarnefndar barst hins vegar fjöldi andmæla og athugasemda, frá umsagnaraðilum, félagasamtökum og einstaklingum. Vörðuðu þær til að mynda, lyktarmengun, hljóðmengun, aukinn umferðarþunga, mengun grunnvatns, sýkingarhættu grunnvatns og nálægð við frístundabyggð og fornminjar.

Að því er fram kemur í erindi nágranna Hóla var um að ræða umsókn frá Síld og fisk, sem framleiðir og selur vörur undir merkjum Ali. Í umræddu erindi segir meðal annars að svíabúið muni hafa í för með sér lyktar- og jarðvegsmengun, auk þess sem áhyggjum er lýst af nálægð búsins við nærliggjandi bæi og byggð.

„Svínabú af því tagi sem hér er rætt um mun fela í sér verulegar umhverfisraskanir sem hafa neikvæð áhrif á nánasta umhverfi svínabúsins og þar með talið allar nálægar jarðir, íbúa þess og framtíðaruppbyggingu á jörðunum. Öllum má ljóst vera að af slíkri starfsemi hlýst mengun vegna úrgangs og lyktar sem mun dreifast víða. Svínabú af þessari stærð á ekki heima á svo þéttbýlu svæði sem Flóinn er,“ segir í erindinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×