Innlent

Hryssan fær að heita Lán eftir allt saman

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lán (fremra hrossið) á beit með félaga sínum.
Lán (fremra hrossið) á beit með félaga sínum. úr einkasafni

Hryssa Þebu Bjartar Karlsdóttur, símsmíðameistara og hestaeiganda á Austurlandi, fær að heita Lán eftir allt saman. Hestanafnanefnd samþykkti beiðni Þebu um skráningu á nafninu í dag eftir að hafa hafnað því.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku. Þeba sagði þar frá því að hún hefði óskað eftir því nú í byrjun mánaðar að fá nafnið Lán samþykkt hjá hestanafnanefnd, til að fá það svo skráð í WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins. 

Nafnið beygist eins og kvenmannsnafnið Rán, þ.e. Lán, um Lán, frá Lán til Lánar. En nefndin hafnaði nafninu á grundvelli þess að það væri í raun hvorugkynsorð. Þá fylgdi sögunni að eftir höfnun hestanafnanefndar sendi Þeba mannanafnanefnd beiðni um að fá kvenmannsnafnið Lán samþykkt - sem reyndist auðsótt.

Reglur um hestanöfn sem samþykktar voru hjá FEIF, alþjóðasamtökum íslenska hestsins, kveða á um að hestar skuli bera íslensk nöfn - og að nöfn á hryssum skuli kvenkyns en hesta karlkyns. Vísir fjallaði fyrr í dag um hestanöfn sem nefndin hefur hafnað frá stofnun 2016.

En nú hefur nefndinni snúist hugur. Í bréfi til Þebu frá hestanafnanefnd sem barst í dag segir að nafnið Lán hafi verið skráð á nafnalista WorldFengs. Hún geti því notað það á hryssuna sína. 

Þeba er að vonum ánægð með niðurstöðuna. „Fullnaðarsigur! Skyldi þessi ákvörðun eitthvað hafa að gera með fjölmiðlaumfjöllun síðustu viku?“ skrifar Þeba á Facebook-síðu sinni í kvöld, þar sem hún deilir ákvörðun hestanafnanefndar.


Tengdar fréttir

Fær sjálf að taka upp nafnið Lán en hryssan ekki

Hestaeigandi á Austurlandi furðar sig á því að fá ekki að nefna hryssu sína Lán. Hestanafnanefnd hafnaði nafninu vegna þess að það er hvorugkynsorð - en hægðarleikur var hins vegar að fá það samþykkt hjá mannanafnanefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×