Í hlutafjárútboði Íslandsbanka hélt ríkið eftir 65 prósenta hlut í bankanum en miðað við markaðsgengi Íslandsbanka í dag er hluturinn metinn á meira en 160 milljarða króna.
Stefnt er að því að selja þann hlut að fullu á árunum 2022 og 2023 „ef markaðsaðstæður verða ákjósanlegar“. Árið 2022 er horft til þess að hægt verði að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins.
„Sala á 35 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka árið 2021 fyrir 55,3 milljarða króna og fyrirhuguð frekari sala á árinu 2022 er mikilvægur þáttur í virkri stýringu á efnahag ríkisins. Með sölunni er hægt að auka sjóðstreymi til ríkisins, minnka lánsfjárþörf og auka rými til fjárfestinga í samfélagslega arðbærum verkefnum þrátt fyrir hallarekstur,“ segir í frumvarpinu.
Afkoma ríkissjóðs batnar um 120 milljarða króna milli þessa árs og næsta árs og útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 66 milljörðum hærri árið 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðastliðið vor.
Í kjölfar heimsfaraldursins gerðu áætlanir ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs myndi hækka í 30 prósent undir lok ársins 2020. Forsendur gildandi fjármálaáætlunar gerðu ráð fyrir áframhaldandi skuldavexti árin 2021 og 2022, upp í um 42 prósent af vergri landsframleiðslu.
Nú eru horfur á að skuldir verði um 200 milljörðum króna lægri undir lok árs 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun og nemi um 34 prósent af vergri landsframleiðslu í stað 42 prósenta.
„Bætta skuldastöðu má að mestu þakka þróttmeiri efnahagsbata en spáð var, en einnig vel heppnaðri sölu á 35 prósenta eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.