Sport

Segir það ekki ganga að Ís­land sé að spila heima­leiki sína í Rúss­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásmundur Einar Daðason segir ekki boðlegt að íslenskt landslið spili heimavelli sína á erlendri grundu.
Ásmundur Einar Daðason segir ekki boðlegt að íslenskt landslið spili heimavelli sína á erlendri grundu.

Er ný ríkisstjórn var tilkynnt í gær varð ljóst að Ásmundur Einar Daðason er mennta- og barnamálaráðherra Íslands. Hann mun einnig sinna verkefnum tengdum æskulýðs- og íþróttamálum. Þar á meðal er uppbygging á þjóðarleikvöngum Íslands.

Ásmundur Daði ræddi við Stöð 2 og Vísi um nýtt hlutverk sitt innan ríkisstjórnarinnar. Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.

„Síðan eru það íþróttamálin, ég hlakka mjög að takast á við þau verkefni. Þar eru stór verkefni framundan, bæði hvað varðar afreksfólkið okkar, hvað varðar tómstundastarf barna og ekki síður þjóðarleikvanga.“

Það er eitt af þeim verkefnum sem rammað er inn í stjórnarsáttmála. Það getur auðvitað ekki gengið að landsliðið okkar - til að mynda í gær var körfuknattleiksliðið okkar að spila heimaleik í Sankti Pétursborg. Það sér það hver maður að það getur ekki gengið til lengdar,“ sagði Ásmundur Einar um stöðu íslensku landsliðanna.

Vitnaði hann þar með í þá skelfilegu stöðu sem körfuknattleikslið karla er í en liðið hefur nú leikið tvo leiki á skömmum tíma í Rússlandi.

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, hefur nú þegar rætt við Ásmund Daða um stöðu mála og skrifaði eftirfarandi á Twitter-síðu sína.

„Eitt af stærstu verkefnum nýs ráðherra íþróttamála eru afreksíþróttafólkið okkar og þjóðarleikvangur sem sagt heimili fyrir landsliðin okkar. Ég hlakka mikið til samstarfsins við ráðherra íþróttamála og aðra sem þessum málum stjórna.“

Hannes ræddi ítarlega við Vísi eftir tap Íslands í Rússlandi fyrr í kvöld. Verður viðtalið birt í fyrramálið hér á íþróttavef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×