Erlent

Fjórir táningar handteknir fyrir að berja tólf ára stúlku til dauða

Samúel Karl Ólason skrifar
Ava White var tólf ára gömul og hafa fjórir drengir verið handteknir.
Ava White var tólf ára gömul og hafa fjórir drengir verið handteknir. Lögreglan í Merseyside og EPA

Lögreglan í Liverpool hefur handtekið fjóra táningsdrengi vegna gruns um að þeir hafi myrt tólf ára stúlku. Ráðist var á stúlkuna í kjölfar rifrildis í gærkvöldi og dó hún i kjölfarið vegna mikilla meiðsla sem hún hlaut.

Einn hinna handteknu er þrettán ára, tveir eru fjórtán og einn er fimmtán ára.

Samkvæmt frétt Sky News var stúlkan, sem hét Ava White með vinum sínum við athöfn þar sem kveikt var á jólaljósum í miðbæ Liverpool. Talið er að vinahópur hennar hafi lent í rifrildi við drengina og á endanum hafi þeir ráðist á hana og barið hana til dauða.

Drengirnir flúðu af vettvangi en voru handteknir og eru grunaðir um morð. Krufning á að staðfesta dánarorsök stúlkunnar. Áður hafði lögreglan sagt að Ava hefði verið stungin.

Sky hefur eftir Jon Roy, aðstoðarlögregluþjóni að fjölskylda stúlkunnar hafi fengið áfallahjálp.

„Heimur þeirra er í rúst og ekkert foreldri á að þurfa að koma til dyra og heyra lögregluþjón segja að barn þeirra sé dáið,“ sagði Roy.

Lögreglan segir fjölmarga hafa verið í miðbænum á þessum tíma og hefur beðið vitni og fólk sem tók barsmíðarnar mögulega upp á síma um að gefa sig fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×