Fótbolti

Landsliðin hittust í Leifsstöð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fótbolta- og handboltalandsliðin stilltu sér upp í myndatöku í Leifsstöð.
Fótbolta- og handboltalandsliðin stilltu sér upp í myndatöku í Leifsstöð. hsí

Kvennalandslið Íslands í handbolta og fótbolta héldu bæði erlendis í morgun. Svo skemmtilega vildi til að þau hittust í Leifsstöð.

A- og B-landslið Íslands í handbolta kvenna héldu út til Tékklands þar sem þau taka þátt í tveimur aðskildum fjögurra liða mótum. Leikið er á fimmtudag, föstudag og laugardag. Auk Íslands taka Tékkland, Noregur og Sviss þátt á mótunum tveimur.

Kvennalandsliðið í fótbolta hélt hins vegar til Hollands. Þar mætir Ísland Japan í vináttulandsleik á fimmtudag. Íslenska liðið heldur svo til Kýpur þar sem það mætir heimakonum í undankeppni HM 2023 þriðjudaginn 30. september.

Hluti kvennalandsliðsins í fótbolta fór utan í morgun og í Leifsstöð hitti það kvennalandsliðið. Að því tilefni var mynd smellt af íþróttakonunum sem má sjá hér fyrir ofan.

Með sigri á Kýpur styrkir Ísland stöðu sína í C-riðli undankeppni HM. Íslenska liðið tapaði fyrir Evrópumeisturum Hollands í fyrsta leik sínum í undankeppninni en vann svo Tékkland og Kýpur í næstu tveimur leikjum sínum. Sigurvegari riðilsins fer beint á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2023 en liðið í 2. sæti í umspil.

Kvennalandsliðið í handbolta hefur leikið tvo leiki í riðli 5 í undankeppni EM 2022. Ísland tapaði stórt fyrir Svíþjóð í fyrsta leik sínum en vann svo góðan sigur á Serbíu. Næstu leikir Íslands í undankeppninni eru gegn Tyrklandi í mars á næsta ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×