Úlfar tók við stjórnarformennsku í félaginu af Helga Magnússyni, aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, í septembermánuði síðastliðnum en Helgi sagði sig þá úr stjórn Bláa lónsins eftir að hafa skömmu áður gengið frá sölu á öllum 6,2 prósenta hlut sínum í fyrirtækinu.
Úlfar, sem hætti meðal annars í stjórn Icelandair fyrr á árinu eftir að hafa verið stjórnarformaður í flugfélaginu undanfarin ár, fer með lítinn eignarhlut í Bláa lóninu sem einn af hluthöfum eignarhaldsfélagsins Keila en það á rúmlega ellefu prósenta hlut í fyrirtækinu. Úlfar hefur verið varamaður í stjórn Bláa lónsins – fyrir utan árin 2019 og 2020 þegar hann tók um skamma hríð sæti í aðalstjórn – um langt árabil.
Skömmu eftir að Helgi seldi hlut sinn í Bláa lóninu gerði Sigurður Arngrímsson, fjárfestir og einn af stærri hluthöfum Bláa lónsins í gegnum eignarhaldsfélagið Saffron Holding, slíkt hið sama – hlutur hans nam einnig tæplega 6,2 prósentum – þegar hann seldi bréf sín í ferðaþjónustufyrirtækinu til Blávarma, félags í eigu fjórtán lífeyrissjóða, fyrir jafnvirði um 3,8 milljarða króna.
Samkvæmt heimildum Innherja seldi Helgi, sem hafði setið í stjórn Bláa lónsins í liðlega sautján ár, hlut sinn á umtalsvert lægra verði en í tilfelli Sigurðar.
Bláa lónið tapaði 20,7 milljónum evra, jafnvirði 3,1 milljarði króna, á síðasta ári og tekjur þess drógust saman um 74 prósent frá árinu 2019 og námu samtals 32,8 milljónum evra. Eigið fé félagsins stóð í 57 milljónum evra í árslok 2020.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.