Erlent

Biden vill Powell á­fram sem seðla­banka­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Jerome Powell tók við embætti seðlabankastjóra Bandaríkjanna árið 2017.
Jerome Powell tók við embætti seðlabankastjóra Bandaríkjanna árið 2017. AP

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt Jerome Powell seðlabankastjóra Bandaríkjanna til að gegna embættinu annað skipunartímabil.

Biden greindi frá þessu í dag og hrósar hann Powell fyrir stjórn sína á tímum heimsfaraldursins.

Forsetinn greindi jafnframt frá því að Lael Brainard yrði tilnefnd sem nýr varaseðlabankastjóri en hún hefur átt sæti í stjórn seðlabanka Bandaríkjanna frá árinu 2014. Orðrómur hafði verið um það að Biden hafi ætlað sér að tilnefna Brainard í stað Powell, en það reyndist ekki rétt.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tilnefndi Powell sem seðlabankastjóra árið 2017 og tók hann þá við embættinu af Janet Yellen, sem Biden gerði síðar að fjármálaráðherra sínum þegar hann var kjörinn forseti.

Powell er menntaður lögfræðingur og hefur átt sæti í stjórn bandaríska seðlabankans frá árinu 2012. Powell er vellauðugur og starfaði á árum áður í Carlyle Group, einu af stærstu fjárfestingafélögum heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×