Viðskipti innlent

337 milljóna króna gjaldþrot Solstice Productions

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá tónleikum á Secret Solstice.
Frá tónleikum á Secret Solstice. Vísir/Friðrik Þór

Gjaldþrot Solstice Productions, sem stóð fyrir tónlistarhátíðinni Secret Solstice, nam 337 milljónum króna. Engar eignir fundust í þrotabúinu upp í skuldir. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Fram kemur á vef Credit Info að vatnsfyrirtæki í eigu Jóns Ólafssonar hafi átt rúmlega 70 prósent hlut í fyrirtækinu. Aðrir þjóðþekktir menn á borð við Jakob Frímann Magnússon og Guðfinn Sölva Karlsson, Finna á Prikinu, áttu lítinn hlut í fyrirtækinu.

Það voru börn Jón, Friðrik Ólafsson og Katrín Ólafsson, sem ráku fyrirtækið sem auk tónleikahátíðarinnar í Laugardalnum hélt Guns N'Roses tónleika á Laugardalsvelli sumarið 2018.

K2 Agency Limited, umboðsfyrirtæki hljómsveitarinnar Slayer, höfðaði mál á hendur fyrirtækinu Solstice Productions ehf. og Friðriki Ólafssyni, forsvarsmanni félagsins. Solstice Productions samdi upphaflega við Slayer um að koma fram á hátíðinni sumarið 2018. Sveitin hélt tónleikana 23. júní það ár en í ágúst hafði greiðsla upp á 133 þúsund dali ekki borist umboðsfyrirtækinu.

Friðrik var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl í fyrra til að greiða umboðsfyrirtækinu um 20 milljónir króna í eftirstandandi þóknun fyrir að spila á hátíðinni í júní 2018 en ekkert fékkst upp í kröfuna. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo Live events ehf., L events ehf., Lifandi viðburði ehf. og Guðmund Hreiðarsson Viborg í mars síðastliðnum til að greiða umboðsfyrirtæki Slayer eftirstandandi þóknun upp á um sautján milljónir króna.

Dómurinn var staðfestur í Landsrétti á föstudag.


Tengdar fréttir

Hætt við Secret Solstice 2021 en blásið til stórtónleika

Ekkert verður af tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fara átti fram í lok júní. Hefur hátíðinni verið frestað um ár eða til júní 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lifandi viðburðum, skipuleggjendum hátíðarinnar.

Engar eignir í þrota­búi rekstrar­fé­lags Secret Sol­stice

Engar eignir fundust í þrotabúi Solstice Productions ehf. sem hélt tónlistarhátíðina Secret Solstice tónlistarhátíðina í Laugardalnum í nokkur ár og Guns N' Roses tónleika hér á landi árið 2018. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í maí í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×