Handbolti

Ágúst reiður við dómarann: Ég er ekki hundur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson stýrir Valskonum í leiknum í gær.
Ágúst Þór Jóhannsson stýrir Valskonum í leiknum í gær. Vísir/Vilhelm

Ágúst Þór Jóhannsson er með Valskonur ósigraðar og með fullt hús á toppi Olís deildar kvenna í handbolta eftir öruggan þrettán marka sigur á ÍBV í gær, 35-22. Hann var ekki alveg sáttur með dómarann í leiknum.

Valsliðið hefur unnið sex fyrstu leiki sína í Olís deildinni og sigurinn á ÍBV var annar sigur liðsins á fimm dögum.

Í leiknum í gær komust Eyjastúlkur upp með augljóst peysutog á Írisi Ástu Pétursdóttur í hraðaupphlaupi og Ágúst Þór Jóhannsson var allt annað en sáttur þegar Vilhelm Gauti Bergsveinsson, dómari leiksins, kallaði á hann.

„Þarna var peysutog fyrir allan peninginn,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson í lýsingunni á Stöð 2 Sport og svo mátti heyra hvað fór á milli dómarans og Ágústs.

„Ágúst, komdu, komdu, KOMDU,“ sagði Vilhelm Gauti.

„Koma hvert? Talaðu við mig eins og mann. Ég er ekki hundur,“ sagði Ágúst.

„Slökum aðeins á,“ sagði Vilhelm.

„Hún bara hangir í treyjunni hjá henni,“ sagði Ágúst.

„Ég var að horfa á kastið fram og þá sé ég ekki þegar var verið að toga í treyjuna,“ sagði Vilhelm.

Það má sjá peysutogið og samskiptin hjá Ágústi og dómaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Ágúst vill ekki láta tala við sig eins og hund



Fleiri fréttir

Sjá meira


×