Innlent

Mun ekki tjá sig um MMS en málin í „al­gjörum for­gangi“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Lilja endurskipaði Arnór Guðmundsson í embætti forstjóra Menntamálastofnunar í fyrra en hann var skipaður í fimm ár.
Lilja endurskipaði Arnór Guðmundsson í embætti forstjóra Menntamálastofnunar í fyrra en hann var skipaður í fimm ár. vísir/vilhelm

Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið segir að mál sem varði stjórnun Mennta­mála­stofnunar séu í „al­gjörum for­gangi“ innan ráðu­neytisins. Ráð­herrann vill þó ekki tjá sig um þau fyrr en með­ferð þeirra verður lokið.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í morgun fá bæði yfir­stjórn Mennta­mála­stofnunar og for­stjóri hennar, Arnór Guð­munds­son, fall­ein­kunn í á­hættu mati sem gert var af mann­auðs­fyrir­tækinu Auðnast fyrir mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið.

Í bráða­birgða­niður­stöðum matsins segir að sjö af ellefu á­hættu­þáttum þess séu rauðir, sem táknar ó­við­unandi á­hættu sem nauð­syn­legt sé að bregðast við án tafar. Tveir þættir eru síðan metnir gulir, sem táknar við­unandi á­hættu en kalla samt á öryggis­ráð­stafanir og eftir­lit.

Í til­kynningu ráðu­neytisins til frétta­stofu í dag segir að það hafi mál sem varða stjórnun Mennta­stofnunar og líðan og vel­ferð starfs­fólks hennar til skoðunar. Þau séu í al­gjörum for­gangi en að á­hersla sé lögð á „fag­leg vinnu­brögð í málinu og þau unnin eftir lögum og reglum sem gilda“.

Þar er til dæmis vísað í lög um opin­bera starfs­menn en þar sem for­stjóri Mennta­stofnunar er skipaður em­bættis­maður ríkisins getur ráð­herra til dæmis ekki sagt honum upp en getur þó flutt hann úr einu em­bætti í annað sam­kvæmt 36. grein laganna. Hann verður þó að veita samþykki sitt fyrir slíkri tilfærslu.

Arnór var endurskipaður í embættið í fyrra og þá skipaður til fimm ára. Hann ætti því að gegna starfinu til ársins 2025.

Lilja Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, ætlar ekki að tjá sig um málið á meðan það er í vinnslu innan ráðu­neytisins. „Enda er það undir ráð­herra komið að taka á­kvarðanir þegar mál hafa verið skoðuð ítar­lega,“ segir í til­kynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×