Erlent

Full­trúa­deildin sam­þykkti inn­viða­frum­varp Bidens

Þorgils Jónsson skrifar
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, fagnar hér með félögum sínum á gólfi þingsalarins eftir að málið var í höfn í nótt.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, fagnar hér með félögum sínum á gólfi þingsalarins eftir að málið var í höfn í nótt. Mynd/AP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt frumvarp um meiriháttar innviðauppbyggingu og samgönguumbætur. Verður um 1.000 milljörðum varið í það verkefni á komandi áratug. Er þetta talinn áfangasigur fyrir Joe Biden forseta, en þetta er annað af tveimur lykilmálum forsetans, sem hefur lent í vandræðum með að sannfæra félaga sína í Demókrataflokknum.

Frumvarpið var samþykkt með 228 atkvæðum gegn 206. Þrettán repúblikanar greiddu atkvæði með frumvarpinu, en sex demókratar gegn málinu, þar sem þeim fannst það ekki ganga nógu langt. AP og Guardian segja frá.

Fulltrúadeildin samþykkti einnig að veita næsta lykilmáli Bidens brautargengi yfir á lokaatkvæðagreiðslu síðar í þessum mánuði. Þar er um að ræða stærðarinnar pakka með margs konar félagslegum umbótum, sem og aðgerðum í loftslagsmálum. Gerir frumvarpið ráð fyrir að verja 1.850 milljörðum dala í það verkefni á næstu tíu árum.

„Í kvöld tókum við, sem þjóð, risastórt framfaraskref,“ sagði Biden í tilkynningu eftir að málið var í höfn. Brýndi hann sitt fólk til að klára bæði frumvörpin sem fyrst. „Margar kynslóðir inn í framtíðina mun fólk horfa til baka og sjá að það var hér sem Bandaríkin urðu hlutskörpust í keppninni um 21. öldina.“

Demókratar á vinstri væng flokksins hafa hingað til haldið afgreiðslu málanna í eins konar gíslingu þar sem þau vildu að frumvörpin tvö yrðu samþykkt saman, en ekki í sitthvoru lagi. Leggja þau áherslu á félagslega- og loftslagspakkann, en miðjusæknari flokkssystkin þeirra vildu klára innviðapakkann fyrst og hafa áhyggjur af kostnaði við hitt málið.

Biden náði samkomulagi við bæði flokksbrotin þannig að vinstri vængurinn hleypti innviðapakkanum í gegn í nótt, en miðjufólkið lofaði að samþykkja félaglega frumvarpið síðar í þessum mánuði að því gefnu að úttekt á kostnaði við það væri ekki umfram fyrirheit forsetans.


Tengdar fréttir

Lofts­lags­á­ætlun Bidens í vanda

Metnaðarfull loftslagsaðgerðaáætlun Joes Biden Bandaríkjaforseta virðist vera að sigla í strand. Fjármögnun orkuskipta, sem var einn burðarstólpa áætlunarinnar, verður líklega felld út úr fjárlagafrumvarpi sem nú er í meðferð í öldungadeild Bandaríkjaþings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×