Fótbolti

Töluðu ekki dönsku og slógu til fréttamanns

Sindri Sverrisson skrifar
Hér má sjá mann með gula Bröndby-húfu og trefil sem vildi ekkert ræða við blaðamann Ekstra Bladet og virtist ekki skilja dönsku. Stuðningsmenn Rangers reyndu að svindla sér leið inn á leikvanginn. Á vellinum reyndu svo stuðningsmenn Bröndby að brjóta sér leið inn á svæði gestanna.
Hér má sjá mann með gula Bröndby-húfu og trefil sem vildi ekkert ræða við blaðamann Ekstra Bladet og virtist ekki skilja dönsku. Stuðningsmenn Rangers reyndu að svindla sér leið inn á leikvanginn. Á vellinum reyndu svo stuðningsmenn Bröndby að brjóta sér leið inn á svæði gestanna. Skjáskot/Ekstrabladet og Getty

Lögreglan í Kaupmannahöfn beitti kylfum og handtók fjóra vegna óláta í tengslum við leik Bröndby og skoska liðsins Rangers í Evrópudeildinni í fótbolta.

Blaðamaður danska miðilsins Ekstra Bladet var á ferð fyrir utan leikvang Bröndby fyrir leik og sá að einhverjir stuðningsmanna Rangers höfðu klætt sig upp sem Bröndby-stuðningsmenn í von um að komast inn á leikinn.

Á myndbandi má sjá blaðamanninn reyna að ræða við gulklædda mennina á dönsku án þess að fá orð upp úr þeim. Aðrir í röðinni áttu ekki í vandræðum með að svara á dönsku.

Hinir þöglu stuðningsmenn virtust ekki vilja sjást í mynd og sögðu þeir blaðamanninum að snáfa í burtu og slógu í hljóðnemann hans.

Talsmaður lögreglu sagði við Ekstra Bladet að beita hefði þurft kylfum til að ná stjórn á aðstæðum þegar stuðningsmenn Rangers reyndu að komast inn á Bröndby-leikvanginn án þess að vera með miða.

Ólæti voru einnig eftir leik þegar stuðningsmenn Bröndby reyndu að komast í stuðningsmannahólf gestanna en voru stöðvaðir af lögreglu.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í gærkvöld sagði að alls fjórir menn hefðu verið handteknir vegna óláta í tengslum við leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×