Innlent

Agnieszka tekur við af Sólveigu Önnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Agnieszka Ewa Ziólkowska (t.v.) hefur verið varaformaður Eflingar. Hún tekur við af Sólveigu Önnu sem formaður.
Agnieszka Ewa Ziólkowska (t.v.) hefur verið varaformaður Eflingar. Hún tekur við af Sólveigu Önnu sem formaður.

Stjórn Eflingar kaus Agnieszku Ewu Ziólkowsku til að taka við embætti formanns stéttarfélagsins af Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem sagði af sér á sunnudagskvöld. Formanns- og stjórnarkosningar verða haldnar fyrir lok mars.

Ólöf Helga Adolfsdóttir var kjörin varaformaður Eflingar á stjórnarfundinum í dag. Á honum var afsögn Sólveigar Önnu sem formanns afgreidd.

Í yfirlýsingu sem stjórnin sendi fjölmiðlum þakkar hún framlag Sólveigar Önnu og Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, í þágu láglaunafólks, kvenna og fólks af erlendum uppruna á Íslandi.

Eflingar bíði það verkefni að undirbúa næstu kjarasamningsviðræður en samningar séu lausir í lok næsta árs. Stjórnin segist ekki ætla að veita fjölmiðlum nein viðtöl um ágreining undanfarinna daga.

Sólveig Anna sagði af sér og vísaði til ágreinings við starfsfólk á skrifstofu Eflingar. Á föstudag krafðist hún þess að starfsfólkið drægi til baka ályktun þar sem stjórnarhættir hennar og Viðars voru gagnrýndir frá því í sumar. Þegar starfsfólkið varð ekki við því sagðist Sólveig Anna taka því sem vantraustsyfirlýsingu. Viðar sagði upp störfum daginn eftir að hún tilkynnti um afsögnina.

Ólöf Helga sem tekur við sem varaformaður starfaði sem hlaðmaður fyrir Icelandair á Reykjavíkurflugvelli. Undir forystu Sólveigar Önnu og Viðars krafðist Efling þess að Icelandair drægi uppsögn hennar til baka á þeim forsendum að hún hefði verið trúnaðarmaður starfsmanna þegar henni var sagt upp.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×