Skoðun

Að taka sér tíma

Áslaug Inga Kristinsdóttir skrifar

Vegferð okkar í gegnum lífið liggur um margar og mis greiðfærar leiðir. Sum okkar eiga erfiðara með að feta okkur eftir algengustu leiðunum og við náum kannski aldrei á leiðarenda nema með því að nálgast þær með öðrum hætti en flestir gera sem á t.d. við um nám og vinnu.

Það getur verið bæði óheppilegt og skaðlegt fyrir sjálfsmyndina að bera sig saman við aðra hvað varðar atriði eins og námsframvindu eða atvinnustöðu. Að taka lengri tíma, aðra leið, í að klára verkefnin framundan er nefnilega allt í lagi. Að vera lengur í námi en margir aðrir vegna þess að þú þarft að fara þér hægar er ekkert til að skammast sín fyrir.

Nú þegar prófavertíðin nálgast óðfluga er gagnlegt að hafa í huga að heimurinn fer ekkert á hliðina þótt maður falli á prófi. Virði einstaklingsins stendur ekki eða fellur við lokaeinkunn úr námsáfanga. Fyrir nokkrum árum upplifði ég mig ómögulega fyrir það eitt að falla á lokaprófi í bókfærslu. Ég sem hafði lagt mig svo vel fram yfir önnina. Einn aðili nefndi við mig að það væri ekkert að því að taka sér lengri tíma í það að sinna námi og sáði þennan dag fræjum vonar í huga minn með orðum sínum.

Eftir stendur að ég þarf að sinna námi hægt og rólega og byggja ekki virði mitt á afkastagetu líkt og áður. Það er svo margt annað sem við höfum til brunns að bera í tilverunni heldur en afköst og framleiðni. Að gera minna og vera meira er oft í fínu lagi og minnkar streitu til muna.

Höfundur er Reykvíkingur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×