Innlent

Ís­lendingar nýta nánast allan þorskinn

Árni Sæberg skrifar
Um níutíu prósent þessara þorska verður nýttur.
Um níutíu prósent þessara þorska verður nýttur. Vísir/Vilhelm

Ný athugun Sjávarklasans á nýtingu á þorskafurðum hérlendis sýnir fram á að Íslendingar beri af öðrum sjávarútvegsþjóðum í þeim efnum og að nýtingin sé um níutíu prósent.

Í skýrslu Sjávarklasans segir að Íslendingar hafi verið í forystu í nýtingu hliðarafurða á hvítfiski í heiminum um árabil. Verulega halli á þau lönd sem við berum okkur saman við en þó megi merkja vaxandi áhuga erlendra fyrirtækja á vinnslu hliðarafurða. Mörg þeirra sýni áhuga á að læra af Íslendingum í þeim efnum.

Sjávarklasinn skilgreinir fullvinnslu hliðarafurða sem nýtingu á öllum pörtum fisksins öðrum en fiskflakinu. Nýting hliðarafurða hafi verið lítil í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman eða einungis 45 til 55 prósent af hvítfiski. 

Þarna sé um veruleg verðmæti að ræða sem fari í súginn hjá öðrum þjóðum. Hér liggji því tækifæri fyrir aðrar sjávarútvegsþjóðir til að gera betur og fyrir Íslendinga að koma að þeim verkefnum með íslenska tækni og þekkingu.

Fjölmörg fyrirtæki nýti hliðarafurðir

Samkvæmt athugunum Sjávarklasans eru 35 fyrirtæki í landinu sem sinna langstærstum hluta vinnslu hliðarafurða. Upplýsingar fengust um veltu tæplega 30 þessara fyrirtækja. 

Á árunum 2012 til 2019 jókst velta þessara fyrirtækja um 35 prósent. Á listanum eru ekki meðtalin fyrirtæki sem nýta hliðarafurðir að óverulegu leyti í framleiðslu sinni. Sum þeirra nýta íslenskar hliðarafurðir í matvæla- eða gosdrykkjaframleiðslu og veitingastarfsemi, afskurð eða marning í matvælaframleiðslu svo eitthvað sé nefnt. Töluvert fleiri íslensk fyrirtæki eru því á einn eða annan hátt tengd áframvinnslu hliðarafurða.

Skýrslu Sjávarklasans má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×