Innlent

Veður­stofan vaktar Torfa­jökuls­svæðið vegna skjálfta

Árni Sæberg skrifar
Lágtíðniskjálftar eru algengir á Torfajökulssvæðinu.
Lágtíðniskjálftar eru algengir á Torfajökulssvæðinu. Vísir/Vilhelm

Lágtíðniskjálftar hafa mælst í miklu magni á Torfajökulssvæðinu frá því í gær. Vísindafólk frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni hittist í dag ásamt fulltrúa frá almannavarnadeild og ræddi virknina.

Í færslu á Facebook segir Veðurstofa Íslands að lágtíðniskjálftar séu algengir á væðinu og að þeir hafi mælst allt frá því að mælingar hófust á svæðinu árið 1986.

Virknin nú sé þó sérstæð þar sem hún sé afar reglubundin og áköf. Um er að ræða litla skjálfta sem mælast um 0,5 að styrk.

Starfsmaður Veðurstofu segir í samtali við Vísi að vöktun svæðisins sé eðlileg enda sé fylgst með öllu kerfinu. Ekki sé talið líklegt að skjálftavirknin orsakist af yfirvofandi eldgosi. Þó sé ekki hægt að útiloka að öflugri skjálftar verði á svæðinu.

Nokkrar skýringar mögulegar

Í færslu Veðurstofunnar segir að nokkrar skýringar hafi verið nefndar til að skýra virknina. Þar á meðal hæg hreyfing um grunnstæðan sprunguflöt, hreyfingar á seigfjótandi kísilsýruríku kvikuinnskoti og breytingar í jarðhitakerfinu. 

Ekki sé enn hægt að festa fingur á hvað valdi skjálftunum og mikil óvissa sé uppi um staðsetningu upptaka skjálftanna.

Starfsmaður Veðurstofu segir að rannsóknarflug í grennd við Torfajökul hafi verið á dagskrá helgarinnar og að stefnu þeirra verði breytt lítillega og svæðið rannsakað úr lofti.

„Veðurstofan er með sólarhringsvakt og fylgist vel með framvindunni,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×