Körfubolti

„Kemur ekki inn í svona leik með svona frammistöðu og ætlast til að góðir hlutir gerist“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni Magnússon hefði viljað sjá Haukana sína spila miklu betur í fyrri hálfleik gegn Brno.
Bjarni Magnússon hefði viljað sjá Haukana sína spila miklu betur í fyrri hálfleik gegn Brno. vísir/vilhelm

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var afar ósáttur með frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik gegn Brno í Evrópubikarnum í kvöld.

Haukar voru 19-45 undir í hálfleik en náðu sér betur á strik í seinni hálfleiknum sem þeir unnu, 42-35. Á endanum vann Brno nítján stiga sigur, 61-80.

„Þetta var sitt hvor leikurinn. Ég var mjög óánægður með frammistöðuna í fyrri hálfleik. Ég var langt frá því að vera sáttur. Við vorum hægar, hálf hræddar og eins og við hefðum enga trú á verkefninu,“ sagði Bjarni við Vísi í leikslok.

„Seinni hálfleikurinn var mun betri, áræðnin var meiri og þegar þeir fengum hreyfingu í sóknina gekk þetta ágætlega. En svo datt þetta niður inn á milli og var alltof hægt. Á móti þessum liðum þurfum við að halda uppi meiri hraða og færa boltann milli kanta.“

Bjarni var sérstaklega svekktur með frammistöðuna í fyrri hálfleik miðað við hvernig Haukar spiluðu í þeim seinni. Hann hefði viljað sjá lykilmenn liðsins gera meira.

„Þetta var alls ekki það sem við ætluðum að koma með í dag. Ég skil ekki hvar við vorum andlega. Og þessir lykilmenn hjá okkur sem ætla og vilja gera stóra hluta og spila um titla, þú kemur ekki inn í svona leik með svona frammistöðu og ætlast til að góðir hlutir gerist,“ sagði Bjarni.

En hvað breyttist til batnaðar hjá Haukum í seinni hálfleik?

„Við vorum áræðnari og grimmari í vörninni. Við héldum mönnum fyrir framan okkur sem gekk ekki í fyrri hálfleik. Þær löbbuðu allar framhjá okkur í einn á einn vörninni en hún varð aðeins betri,“ sagði Bjarni.

„Svo komu kaflar í sókninni þar sem við færðum boltann betur og þá fengum við betri skot. Heilt yfir hittum við ekki vel en það er eins og það er. En frammistaðan í seinni hálfleik var góð og þess vegna er ennþá meira svekkjandi hvað fyrri hálfleikurinn var dapur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×