Erlent

Stefnir í þingrof í Portúgal

Eiður Þór Árnason skrifar
Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgal, talar fyrir fjárlagafrumvarpi sínu.
Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgal, talar fyrir fjárlagafrumvarpi sínu.

Útlit er fyrir þingrof og kosningar í Portúgal eftir að þingið hafnaði fjárlagafrumvarpi sitjandi minnihlutastjórnar fyrir næsta ár.

Niðurstaðan kemur í kjölfar margra vikna samningaviðræðna sem enduðu með því að liðsmenn Kommúnistaflokksins og Vinstri blokkarinnar sneru baki við stjórnarliðum í Sósíalistaflokknum.

Frumvarpinu var hafnað með 117 atkvæðum gegn 108 en minnihlutastjórn Sósíalista hefur fram að þessu notið stuðnings áðurnefndra vinstri flokka.

António Costa, forsætisráðherra landsins, sagði á þinginu að hann hafi gert allt sem hann gæti til að ljá fjárlögunum brautargengi, fyrir utan að bæta við einhverju sem gæti skaðað Portúgal.

„Það síðasta sem Portúgal þarf og það sem Portúgalar eiga skilið er stjórnmálakreppa á þessum tímapunkti,“ bætti hann við og vísaði til bágrar stöðu efnahagslífsins. Fjárlögunum var meðal annars ætlað að leggja grundvöll að áframhaldandi aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins.

Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgal, hefur áður varað við því að hann muni boða til kosninga ef þingið samþykki ekki fjárlög ríkisstjórnarinnar. Talið er að hann geti tilkynnt þingrof í næstu viku þegar hann hefur lokið viðræðum við stjórnmálaleiðtoga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×