Innlent

Gekk um með boga og örvar á Selfossi í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Tilkynnt var um manninn á gangi við Tryggvatorg á Selfossi í nótt.
Tilkynnt var um manninn á gangi við Tryggvatorg á Selfossi í nótt. Vísir/Vilhelm

Maður sem var á gangi um Selfoss með boga og örvar var handtekinn í nótt. Tilkynning barst til lögreglunnar á fimmta tímanum um mann vopnaða boga og örvum á gangi við Tryggvatorg á Selfossi.

Lögregluþjónar fylgdust með honum um tíma, án þess að hann yrði þeirra var, og handtóku hann á Árvegi til móts við Hörðuvelli.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn hafi ekki veitt mótþróa og hafi lagt niður vopn sín um leið og honum var skipað að gera það.

Þá segir að hann hafi verið færður í fangageymslur á Selfossi og biði þess að vera yfirheyrður um atvikið. Yfirheyrslan biði þess að ástand mannsins leyfði.

Í tilkynningunni segir að nokkur viðbúnaður hafi verið viðhafður vegna atviksins. Sérsveit ríkislögreglustjóra og sjúkraflutningamenn hafi verið settir í viðbragðsstöðu.

Ekki stendur til að veita frekari upplýsingar um málið samkvæmt tilkynningunni.

Í gær barst tilkynning um mann með boga og örvar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sá maður hafði sést í Kópavogi og var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til. Þar reyndist þó maður vera við bogfimiæfingar í garði sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×