Fótbolti

Spila um fyrsta Maradona bikarinn rétt fyrir jól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona með HM-bikarinn eftir sigur í úrslitaleik heimsmeistaramótsins árið 1986.
Diego Maradona með HM-bikarinn eftir sigur í úrslitaleik heimsmeistaramótsins árið 1986. Getty/El Grafico

Spænska félagið Barcelona og argentínska félagið Boca Juniors munu spila sérstakan vináttuleik sín á milli í jólamánuðinum en þessi leikur er settur á til minningar um Diego Armando Maradona.

Félögin segja að leikurinn fari fram 14. desember og þar muni þau keppa um fyrsta Maradona-bikarinn en nú er eitt ár er liðið frá andláti hans.

Boca hefur staðfest þátttöku sína í leiknum sem fer fram á Mrsool Park í borginni Riyadh í Sádí Arabíu.

Mardona lést 25. nóvember 2020 eftir að hafa fengið hjartaáfall á heimili sínu en hann var þá að jafna sig eftir aðgerð vegna heilablæðingar. Maradona hafði komist í gegnum alls kyns heilsubresti á sinni ævi og var oft ekki hugað líf. Að þessu sinni tókst mönnum ekki að bjarga honum.

Maradona spilaði fyrir bæði lið Barcelona og Boca Juniors á sínum litríka ferli. Hann skoraði 28 mörk í 40 leikjum með Boca frá 1981 til 1982 og svo 38 mörk í 58 leikjum með Barcelona frá 1982 til 1984.

Barcelona gerði hann að dýrasta knattspyrnumanni heims þegar spænska félagið keypti hann frá Boca Juniors fyrir fimm milljónir punda eftir HM 1982 á Spáni. Barcelona seldi Maradona síðan fyrir annað heimsmetsverð til Napoli sumarið 1984. Mardona kom aftur til Boca undir lok ferilsins og bætti þar við 7 mörkum í 31 leik.

Maradona varð argentínskur meistari með Boca Juniors 1981 og spænskur bikarmeistari með Barcelona 1983.

Hans sigursælustu ár voru þó hjá Napoli þar sem hann varð tvisvar ítalskur meistari og einu sinni bikarmeistari auk þess að vinna Evrópukeppni félagsliða. Hann varð líka heimsmeistari og silfurverðlaunahafi á HM á þeim árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×