Erlent

Rússar í­huga að loka öllu í viku vegna Co­vid-bylgju

Þorgils Jónsson skrifar
Grafalvarlegt ástand er í Covid-málum í Rússlandi þessa dagana. Á myndinni sjást heilbrigðisstarfsmenn  á sjúkrahúsi í Moskvu sinna sjúklingi. 
Grafalvarlegt ástand er í Covid-málum í Rússlandi þessa dagana. Á myndinni sjást heilbrigðisstarfsmenn  á sjúkrahúsi í Moskvu sinna sjúklingi. 

Aldrei hafa fleiri Rússar látist af völdum Covid-19 á einum degi heldur en í gær, en samkvæmt opinberum tölum létust 1.028 manns. Alls hafa 226.353 látist af völdum Covid-19 í Rússlandi frá upphafi faraldursins, sem er það langmesta meðal Evrópuríkja og í fimmta sæti á heimsvísu, á eftir Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi og Mexíkó.

Rúmar átta milljónir Rússa hafa smitast af Covid-19.

Tatyana Golikova aðstoðarforsætisráðherra viðraði í dag þá hugmynd að bregðast við þessari skæðu bylgju með því að lýsa því yfir að fólk haldi sig heima í eina viku frá og með 30. október næstkomandi, en þegar eru fjórir opinberir frídagar í þeirri viku. Tillagan hefur þó ekki verið samþykkt af Vladimir Putin forseta.

Samkvæmt frétt AP hefur smitum fjölgað verulega síðustu vikur og er nú í áður óþekktum hæðum. Þar er talið ríkja almennt sinnuleysi gagnvart einstaklingsbundnum sóttvörnum og stjórnvöld hafa heykst á að herða sóttvarnarreglur.

Þá vekur athygli hversu dræm þátttaka hefur verið í bólusetningum í Rússlandi. Þar er einungis tæpur þriðjungur landsmanna, um 45 milljónir af 146 milljónum, er fullbólusettur, þrátt fyrir að Rússland hafi verið fyrsta ríkið í heiminum til að samþykkja notkun bóluefnis, og enginn hörgull er á framboði á bóluefni.

Bólusetningahik almennings er að hluta til rakið til óljósra skilaboða frá stjórnvöldum, sem hafa, á vettvangi ríkisfjölmiðla, lofsamað hið rússneska Sputnik V en grafið undan öðrum bóluefnum.

Staðan í mörgum héruðum Rússlands er háalvarleg, og sumsstaðar hefur almenn heilbrigðisþjónusta jafnvel verið aflögð um stundarsakir til að geta sinnt Covid-sjúklingum.

Dmitry Peskov, talsmaður ríkisstjórnarinnar, játar í viðtali við fjölmiðla að ástandið sé afar dapurt og að bólusetningahlutfall í þessum erfiðustu héruðum sé afar lágt.


Tengdar fréttir

Metfjöldi smitaðra og látinna í Rússlandi

Yfirvöld í Rússlandi greindu í morgun frá því að metfjöldi manna hefði bæði smitast af Covid-19 og dáið vegna sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. Faraldurinn hefur náð nýjum hæðum í Rússlandi og er að reynast heilbrigðisstarfsmönnum erfiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×