Fótbolti

Englendingar fengu áhorfendabann vegna ólátanna fyrir úrslitaleik EM

Sindri Sverrisson skrifar
Fjölmennt lið lögreglu reyndi að hafa hemil á stuðningsmönnum í kringum úrslitaleik EM í sumar, þar sem Ítalía vann England.
Fjölmennt lið lögreglu reyndi að hafa hemil á stuðningsmönnum í kringum úrslitaleik EM í sumar, þar sem Ítalía vann England. Getty

Enska karlalandsliðið í fótbolta verður að spila næsta heimaleik sinn án áhorfenda vegna ólátanna miklu í kringum úrslitaleik EM á Wembley í sumar.

UEFA úrskurðaði að enska landsliðið yrði án áhorfenda í tveimur heimaleikjum en seinni leikurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára. Þá fékk enska knattspyrnusambandið 100.000 evru sekt, sem jafngildir tæplega 15 milljónum króna.

Knattspyrnusamband Evrópu tók þessa ákvörðun vegna þess hve illa tókst til við að halda uppi röð og reglu á Wembley og við leikvanginn í aðdraganda úrslitaleiks Englands og Ítalíu á EM.

Lögregla handtók 51 manns í tengslum við ólæti vegna úslitaleiksins. Þar af voru 26 handteknir á Wembley.

Í yfirlýsingu enska knattspyrnusambandsins segir að þó að sambandið sé vonsvikið yfir úrskurðinum þá verði honum unað. „Við hörmum hræðilega hegðun þeirra einstaklinga sem stóðu að skammarlegum atvikum á og við Wembley-leikvanginn á úrslitaleik EM, og erum algjörlega miður okkar yfir að sumum þeirra hafi tekist að komast inn á leikvanginn,“ sagði í yfirlýsingu enska sambandsins.

Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á málinu í von um að draga af því lærdóm svo að sagan endurtaki sig ekki. Einnig vinnur sambandið með lögregluyfirvöldum að því að draga þá sem brutu af sér til ábyrgðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×