Handbolti

Gaupi heim­sótti Gunnsa­stofu og þann reyndasta: Myndi aldrei taka krónu fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnþór Hermannsson á spjalli við Guðjón Guðmundsson í Gunnsastofu.
Gunnþór Hermannsson á spjalli við Guðjón Guðmundsson í Gunnsastofu. S2 Sport

Guðjón Guðmundsson var með skemmtilegt innslag í Seinni bylgjunni en hann hitti þá eina liðstjórann sem hefur verið í starfi í 23 ár og það í hans höfuðstöðvum Gunnsastofu.

Eina frá Gaupa er reglulega á dagskrá í Seinni bylgjunni og svo var líka í gærkvöldi.

„Gunnþór Hermannsson hefur staðið sig sem klettur í liðstjórastarfinu hjá HK í gegnum árin. Hann á fáa sína líka og hefur gengið í gegnum súrt og sætt með félaginu enda vakinn og sofinn yfir liðsstjórastarfinu sem hefur átt hug hans allan,“ sagði Guðjón Guðmundsson.

Gaupi spurði Gunnþór út í hans starf þegar hann var við hliðina á búningahenginu.

„Það er bara að hafa þetta klárt fyrir leiki,“ sagði Gunnþór og benti á búningana. „Að þetta sé allt á staðnum, það sé í lagi með þetta og að það vanti ekkert. Bara láta mönnum líða vel held ég og reyna að styðja þá og styrkja eins og maður getur,“ sagði Gunnþór.

Klippa: Seinni bylgjan: Eina í Gunnsastofu

Það er allt í röð og reglu hjá liðsstjóranum og hann merkir alla fylgihluti upp á punkt og prik eins og Gaupi komst að orði.

„Menn kom með sínar óskir og maður reynir að verða við því eins og maður getur. Menn eru kannski búnir að lyfta svo mikið að þeir vilja komast í stærri búning eða þeir eru búnir að leggja það mikið af að þeir vilji komast í minni búning. Maður reynir bara að bjarga því ef hægt er,“ sagði Gunnþór sem viðurkennir að hann sé tapsár.

„Mér finnst ekki gaman að tapa og finnst það hundleiðinlegt. Ég verð ekki brjálaður yfir því. Ég er búinn að vera það lengi í þessu og vera á það mörgum leikjum að það þýðir ekkert,“ sagði Gunnþór sem er sjálfboðaliði.

„Ég þigg ekki laun frá félaginu og myndi aldrei gera það. Þetta er bara áhugamálið mitt og félagið mitt. Ég tek ekki krónu fyrir,“ sagði Gunnþór.

Það má sjá allt viðtalið við Gunnþór hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×