Sport

Albert skoraði og lagði upp í stórsigri

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Albert í leik í September
Albert í leik í September EPA-EFE/Ed van de Pol

Albert Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar, átti flottan leik þegar að AZ Alkmaar gerði sér lítið fyrir og rúllaði upp Utrecht, 5-1, í hollensku úrvalsdeildinni í dag.

Alkmaar hafði fyrir leikinn unnið síðustu tvo leik sína í deildinni og voru því í ágætis formi á meðan Utrecht hafði farið vel af stað í deildinni og voru í þriðja sætinu fyrir leikinn á eftir stórveldunum tveimur, Ajax og PSV Eindhoven.

Az Alkmaar byrjaði leikinn fjörlega og Vangelis Pavlidis skoraði strax á 6. mínútu eftir frábæran undirbúnings Alberts. Albert tók þá á móti stungusendingu og gaf fyrir á Vangelis sem gat ekki annað en skorað.

Az Alkmaar bætti við tveimur mörkum áður en hálfleiksflautan gall. Jesper Karlsson skoraði fyrst á 12. mínútu og Dani De Wit kom Az Alkmaar svo í 3-0 á 40. mínútu.

De Wit var svo aftur á ferðinni á 56. mínútu og leikurinn í rauninni búinn. Það var svo Albert sem skoraði fimmta og síðasta mark heimamanna úr víti á 86. mínútu. Quinten Timber skoraði fyrir Utrecht í uppbótartíma en nær komust Utrecht ekki. 5-1 niðurstaðan.

Az Alkmaar er eftir leikinn í níunda sæti deildarinnar með tólf stig en Utrecht situr í þriðja sætinu með sautján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×