Erlent

Banda­ríkja­menn og Tali­banar funda um brott­flutning og kven­réttindi

Þorgils Jónsson skrifar
Fulltrúar Bandaríkjastjórnar og Talibana munu funda í Doha í dag og á morgun, um brottflutning fólks frá Afganistan og réttindi kvenna og stúlkna til náms og starfa.
Fulltrúar Bandaríkjastjórnar og Talibana munu funda í Doha í dag og á morgun, um brottflutning fólks frá Afganistan og réttindi kvenna og stúlkna til náms og starfa.

Fulltrúar Talibana og Bandaríkjastjórnar funda í dag og á morgun um áframhald á brottflutningi erlendra ríkisborgara og afganskra borgara sem unnu fyrir alþjóðlega herliðið eða stjórnvöld sem Talibanar hröktu fá völdum í ágúst.

Fundað verður í Doha í Katar, en þetta er í fyrsta sinn sem aðilarnir setjast niður til að reyna að ná saman um þessi mál.

Talsmaður Talibana, sem staðsettur er í Doha, sagði í samtali við fréttastofu AP í dag að einnig yrði fjallað um friðarsamkomulagið við bandarísk stjórnvöld frá síðasta ári.

Þar var kveðið á um brotthvarf bandaríska heraflans frá Afganistan, meðal annars að Talibanar skyldu hleypa útlendingum og innlendu samstarfsfólki erlendra aðila óhindrað úr landi.

Er búist við því að bandaríska sendinefndin muni þrýsta á um að Talibanar virði þau fyrirheit, sem og að réttindi kvenna og stúlkna til náms og starfa verði virt, og að alþjóðlega hjálparstofnanir fái að starfa á svæðum þar sem fólk á um sárt að binda vegna skorts á mat og öðrum nauðsynjum.

Heimildarmaður AP úr ranni Bandaríkjastjórnar lagði áherslu á að í viðræðunum fælist ekki viðurkenning á Talibönum sem lögmætum stjórnvöldum í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×