Innlent

Leggja til að byggja 460 í­búðir til við­bótar á Hlíðar­enda­svæðinu

Þorgils Jónsson skrifar
Miklar framkvæmdir hafa verið á Hlíðarendasvæðinu í Reykjavík síðustu ár. Nú hefur verið lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi sem lýtur að því að svæði sem áður var ætlað atvinnuhúsnæði verði skilgreint sem íbúðasvæði undir 460 íbúðir.
Miklar framkvæmdir hafa verið á Hlíðarendasvæðinu í Reykjavík síðustu ár. Nú hefur verið lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi sem lýtur að því að svæði sem áður var ætlað atvinnuhúsnæði verði skilgreint sem íbúðasvæði undir 460 íbúðir.

Alls verða 460 íbúðir byggðar á Hlíðarendasvæðinu í Reykjavík, gangi eftir áætlanir um að breyta skipulagi á þremur reitum á svæðinu. Tveir reitanna voru áður ætlaðir undir atvinnuhúsnæði, þar á meðal hótel, og sá þriðji var skilgreindur sem opið svæði, til bráðabirgða.

Tillaga um breytingu deiliskipulags, þar að lútandi, var lögð fyrir skipulags- og samgönguráð borgarinnar í gær.

Hér má sjá reitina sem um ræðir.

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata lögðu fram bókun þar sem fram kom að gert sé ráð fyrir að 20% íbúðanna verði leigu- eða búseturéttaríbúðir. Þá skulu Félagsbústaðir eiga forkaupsrétt á 5% íbúðanna.

Deiliskipulagið er, samkvæmt því, lagað að bíla- og hjólastæðastefnu borgarinnar þar sem öll götustæði skulu vera samsíða og önnur í kjallara. Þá skulu að lágmarki vera tvö hjólastæði á hverja íbúð.

Samþykkt var að auglýsa tillöguna og málinu var vísað til borgarráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×