Erlent

Ríkis­stjórn Rúmeníu fallin

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 49 ára Florin Citu tók við embætti forsætisráðherra í desember 2020.
Hinn 49 ára Florin Citu tók við embætti forsætisráðherra í desember 2020. AP

Meirihluti á rúmenska þinginu samþykkti í morgun tillögu um vantraust á hendur Florin Citu forsætisráðherra og minnihlutastjórn hans.

Reuters segir frá því að mikill meirihluti þingmanna hafi greitt atkvæði með vantrausti gegn stjórn Citu sem mynduð var fyrir um níu mánuðum. Alls greiddi 281 þingmaður atkvæði gegn Citu. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn þar sem samflokksmenn Citu og þingmenn stuðningsflokka sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Citu myndaði ríkisstjórnina að loknum þingkosningum í lok síðasta árs. Einn stjórnarflokkanna, hinn frjálslyndi USR, sagði fyrir skömmu skilið við stjórnina og sökuðu leiðtogar flokksins Citu um einræðistilburði.

Stjórnarandstöðuflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, hefur sömuleiðis sakað Citu um að bera ábyrgð á gríðarhárri skuldasöfnun landsins.

Florin Citu verður starfandi forsætisráðherra landsins þar til að Klaus Iohannis Rúmeníuforseti tilnefnir nýjan forsætisráðherra og hann samþykktur af þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×