Innlent

Á­kærðir fyrir að hafa beitt IKEA-borð­hníf og glasi gegn hvor öðrum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
IKEA-borðhnífinn nýtti annar maðurinn til að stinga hinn í bakið. 
IKEA-borðhnífinn nýtti annar maðurinn til að stinga hinn í bakið.  Vísir/Hanna

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir að hafa veist hvor að öðrum að næturlagi í október í fyrra. Annar maðurinn beitti hinn glerglasi á meðan hinn mundaði borðhníf frá IKEA í slagsmálunum. Báðir eru þeir ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn hvor öðrum.

Slagsmálin áttu sér stað mánudagskvöldið 26. október eða aðfaranótt þriðjudagsins 27. október í fyrra. Sá fyrri er ákærður fyrir að hafa veist að hinum og slegið hann með glerglasi í höfuðið sem við það brotnaði og í kjölfarið slegið hann nokkrum sinnum í höfuðið með krepptum hnefa.

Þetta kemur fram í ákæru gegn mönnunum sem fréttastofa hefur undir höndum. Fram kemur í kærunni að afleiðingar barsmíðanna hafi verið þær að seinni maðurinn hlaut 1,5 cm skurð vinstra megin á höku, eins cm skurð á vinstri kinn og fjögurra mm skurð á enni.

Hinn maðurinn, sá sem hlaut skurðina, er einnig ákærður en ákæran listar að hann hafi stungið fyrri manninn með IKEA borðhníf í bakið með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut 3 cm langan og 5 cm djúpan skurð á baki vinstra megin.

Ákæruvaldið krefst þess að mennirnir verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að IKEA borðhnífurinn verði gerður upptækur.

Fyrri maðurinn, sá sem beitti glerglasinu og var stunginn með IKEA borðhnífnum, hefur krafist þess að hinn verði dæmdur til að greiða honum tvær milljónir króna í miskabætur. Þá verði honum gert að greiða málskostnað fyrri mannsins að fullu.

Málið fer fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í byrjun októbermánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×