Sport

Vinnur alltaf stóru sjónvarpsleikina: Þurfti bara 37 sekúndur í sigursóknina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Rodgers var frábær á úrslitastundu í nótt.
Aaron Rodgers var frábær á úrslitastundu í nótt. AP/Tony Avelar

Aaron Rodgers og félagar í Green Bay Packers höfðu ekki mikinn tíma til stefnu þegar þeir lentu undir á móti San Francisco 49ers í NFL-deildinni í nótt. Niðurstaðan var samt eins og í síðustu stóru sjónvarpsleikjum Packers, sigur.

Green Bay Packers varð þar með fyrsta liðið til að vinna 49ers á leiktíðinni eftir 30-28 sigur.

49ers liðið hafði komið til baka í leiknum og komst yfir í 28-27 eftir snertimark frá Kyle Juszczyk. Green Bay komst í 17-0 og 24-14 en þarna leit út fyrir að Packers liðið væri að missa frá sér frábæra stöðu.

Rodgers er frábær leikstjórnandi en að þessu sinni hafði hann bara 37 sekúndur og ekkert leikhlé til að fara upp allan völlinn.

Rodgers fann útherjann Davante Adams tvisvar sinnum og setti upp vallarmark fyrir Mason Crosby. Crosby var traustur sem fyrr og skoraði af 51 jarda færi.

Rodgers leit skelfilega út í fyrsta leik tímabilsins þar sem Green Bay liðið fékk stóran skell á móti New Orleans Saints 3-38. Síðan þá hefur liðið unnið tvo leiki í röð og báðir hafa þeir verið sýndir á besta tíma í bandarísku sjónvarpi.

Nú er svo komið að Aaron Rodgers hefur unnið níu kvöldleiki í röð en einn stór sjónvarpsleikur fer fram á sunnudags- og mánudagskvöldi. Þá er athygli mest og enginn annar NFL-leikur í gangi.

Það virðist henta Rodgers mjög vel. Það má heldur aldrei afskrifa kappann þótt það sé ekki mikill tími eftir á klukkunni. Það sýndi hann enn á ný í nótt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×