Erlent

Einn látinn og tólf særðir í skotárás í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásarmaðurinn skaut þrettán manns og þar af dó minnst einn.
Árásarmaðurinn skaut þrettán manns og þar af dó minnst einn. AP/Patrick Lantrip

Minnst einn er látinn og tólf særðir eftir skotárás í matvöruverslun í Tennessee í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn hóf skothríð í Kroger-verslun í Collierville, sem er úthverfi Memphis. Þegar lögregluþjóna bar að garði komu þeir að árásarmanninum látnum.

Hann virðist hafa svipt sig lífi, samkvæmt lögreglunni í Collierville.

Fyrsta tilkynningin um árásina barst til lögreglu klukkan 13:30 að staðartíma, samkvæmt frétt New York Times. Fyrstu lögregluþjónarnir mættu í verslunina fjórum mínútum síðar.

Fyrstu lögregluþjónarnir fóru gang frá gangi í versluninni og hjálpuðu særðu fólki og öðrum sem höfðu falið sig. Sumir höfðu falið sig í kæliskápum og skrifstofum í versluninni.

Dale Lane, lögreglustjóri Collierville, segir þetta „hræðilegasta“ atburð í sögu bæjarins. Enn sem komið er liggur ekki fyrir af hverju maðurinn hóf skothríðina né hvernig byssu hann beitti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×