Íslenski boltinn

Þrjú hundruð miðar á Víkingsleikinn fara í sölu klukkan ellefu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingarnir Nikolaj Hansen, Atli Barkarson og Kári Árnason fagna hér sigri í Víkinni í sumar.
Víkingarnir Nikolaj Hansen, Atli Barkarson og Kári Árnason fagna hér sigri í Víkinni í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Víkingar geta orðið Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í þrjátíu ár um næstu helgi og miklu fleiri vilja komast á leikinn en miðar í boði. Víkingar tóku upp hraðpróf til að geta fjölgað áhorfendum upp í 1500 manns.

Víkingar eru með eins stigs forskot á Breiðablik fyrir lokaumferðina og nægir því sigur á Leikni á heimavelli sínum í Víkinni til að tryggja sér fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins frá 1991.

Guðjón Guðmundsson ræddi stöðu Víkinga við framkvæmdastjórann Haraldur Haraldsson í gær og það má búast við því að margir Víkingar verði við tölvuna sína í kringum ellefu á eftir.

Ætla að fara nýja leið

„Við höfum verið að selja hingað til í tvö fimm hundruð manna hólf en að þessu sinni ætlum við að fara í nýja leið. Þessir þúsund miðar, sem voru þessi tvö hólf, þeir seldust upp strax eftir leikinn á sunnudagskvöld. Við ætlum að fara þá leið núna að nota hraðpróf og vera seinni lega fyrsti viðburðurinn til þess að nota þessi hraðpróf,“ sagði Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Víkings.

Klippa: Gaupi ræddi við Harald framkvæmdastjóra um stærsta leikinn í sögu Víkings

„Með því megum við hleypa fimmtán hundruð manns á völlinn plús öllum fimmtán ára og yngri. Til þess að taka þessi hraðpróf þá þarf fólk að skrá sig á hradprof.covid.is og taka þetta test niður á Suðurlandsbraut innan við 48 tíma frá leik,“ sagði Haraldur.

Þetta er risaleikur fyrir Víkinga og Guðjón talaði um það við Harald að Víkingar hefðu sennilega geta selt fjögur þúsund miða á leikinn.

Sýna leikinn ekki á skjá í Víkinni

„Já eftirspurnin er þannig að við erum búnir að neita fullt af Víkingum um miða á leikinn. Með þessu útspili okkar þá fara upp undir þrjú hundruð miðar í sölu á Stubbi klukkan ellefu í fyrramálið, á miðvikudagsmorgun. Það eru þessir aukamiðar,“ sagði Haraldur í gær.

Víkingar eru einum sigri frá fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum síðan árið 1991.Vísir/Bára

Leikurinn verður ekki sýndur á skjá í íþróttahúsinu þrátt fyrir að fleiri vildu vera í Víkinni þennan dag.

„Nei veðurspáin er þannig að við ætlum að nota íþróttahúsið undir veitingasölu og slíkt. Það verður ekki hægt að horfa á leikinn þar hjá okkur,“ sagði Haraldur.

Ekkert félag með betri árangur í síðustu tíu leikjum

„Þetta krefst gríðarlega mikils undirbúnings enda er þetta stærsti leikurinn í sögu félagsins. Ég held að ég megi fullyrða það. Við höfum vissulega orðið Íslandsmeistarar áður og eigum góðan möguleika núna. Það er mikið í húfi,“ sagði Haraldur.

„Þú getur séð það á leik liðsins að menn hafi haft fulla trú á þessu. Ef þú skoðar árangur Víkings síðustu fimm umferðirnar þá er ekkert félag með betri árangur í deildinni. Ef þú skorað líka árangur Víkings síðustu tíu umferðirnar þá er ekkert félag með betri árangur í deildinni. Það er ekkert talað of mikið um okkur samt og við erum þakklátir fyrir það,“ sagði Haraldur brosandi.

Það má sjá allt spjall Guðjóns við Harald hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×