Erlent

Covid fer fram úr spænsku veikinni í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Washington DC árið 1918.
Frá Washington DC árið 1918. Getty/Underwood Archives

Minnst 675 þúsund Bandaríkjamenn hafa dáið vegna Covid-19 frá því faraldur kórónuveirunnar hófst. Það er sambærilegur fjöldi og talið er hafi dáið vegna spænsku veikinnar á árunum 1918 og 1919.

Íbúafjöldi Bandaríkjanna fyrir rúmri öld síðan var þriðjungur þess sem hann er í dag. Það er þó ekki hægt að kalla tæp sjö hundruð þúsund dauðsföll annað en harmleik. Sagnfræðingur sem sérhæfir sig í sögu læknavísinda sagði AP fréttaveitunni að stórir samfélagshópar í Bandaríkjunum og leiðtogar þeirra hefðu kastað frá sér tækifæri til nýta þá tækni sem er í boði í dag og til að ná umfangsmeiri bólusetningu í Bandaríkjunum.

Kórónuveiran er enn í töluverðu Bandaríkjunum og rúmlega 1.900 manns hafa verið að deyja á degi hverjum að undanförnu.

Talið er að um 50 milljónir manna hafi dáið vegna spænsku veikinnar en í heiminum öllum bjuggu fjórðungur þeirra sem búa í honum í dag.

Tæplega 4,7 milljónir hafa dáið vegna Covid-19, svo vitað sé. Sérfræðingar telja líklegt að raunverulegur fjöldi látinna sé töluvert hærri.

Eins og spænska veikin er mögulegt að Covid-19 muni aldrei hverfa fyrir fullt og allt. Vísindamenn vonast til þess að kórónuveiran muni með tíð og tíma verða að árstíðabundinni flensu samhliða auknum bólusetningum og mótefnauppbyggingu í mönnum. Það gæti þó tekið töluverðan tíma og ekki er víst að svo verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×